Pétur Haukur Jóhannesson

Höfundur bókarinnar Nýlenda A0-4 - http://www.nylenda.is

  • Brazilian Jiu Jitsu
  • Running
  • books
  • Game design

Bók: Nýlenda A0-4
Vefsíða: http://www.nylenda.is

Hæ og velkominn. Ég er að safna fyrir útgáfu vísindaskáldsögunnar Nýlenda A0-4. Ég hóf að skrifa bókina á fullu árið 2010 þegar ég var atvinnulaus í um fjóra mánuði. Síðan þá hef ég unnið í henni við og við, en með löngum pásum á milli enda ansi mörg verkefni sem hafa klárast í millitíðinni.

Þegar ég lauk námi við Menntaskólann á Egilsstöðum hóf ég nám við lögregluskóla ríkisins. Starfsöryggið í lögreglunni var ekki meira en að ég missti vinnuna í byrjun árs 2010 og hóf þá að skrifa bókina. Um haustið hóf nám við tölvunarfræði í Háskólanum í Reykjavík og útskrifaðist þaðan árið 2013. Síðan þá hef ég starfað sem hugbúnaðarsérfræðingur hjá Advania.

Nú bý ég í Árbæ með unnustu minni, Tinnu Hrönn. Við eigum von á barni í lok febrúar svo ég hugsaði með mér að það væri kjörið tækifæri að koma bókinni í útgáfu fyrir þann tíma :)

Nýlenda A0-4 er vísindaskáldskapur sem ansi margir gætu haft gaman að. Ég passa mig á að gefa takmarkaðar upplýsingar um söguþráðinn en ég get lofað því að hún inniheldur talsvert blóð, mikið af byssum, flóði af tárum- og allskonar skepnum sem ekki finnast á Jörðinni.

Ég lagði mikið upp úr því að skrifa persónurnar í bókinni þannig að þær séu sem raunverulegastar. Ég reyndi að túlka tilfinningar þeirra og viðbrögð við atvikum eins og fólk myndi bregðast við þeim í raun, þrátt fyrir að aðstæður í bókinni séu ekki alltaf í takti við raunveruleikann. Enda er lítið varið í vísindaskáldskap nema það sé talsvert ímyndunarafl til staðar.

Brot úr 2. kafla:

Þegar þeir komu að járnklæddu hurðinni, sem samsvaraði sig vel við neðri hluta byggingarinnar, vildi hún ekki opnast. Við hliðina á henni var skjár sem var líklega augnskanni fyrir starfsfólk.

„DJÖFULLINN“ hrópaði Erlendur. Hann sparkaði í hurðina af öllu afli, en ekkert gerðist. Þá sparkaði hann aftur... og aftur... og þá loks gaf hún eftir og kastaðist í vegginn svo það bergmálaði inni. „Svona – ég nenni ekki að standa í þessu helvítis veseni lengur.“

„Við skulum halda sönsum drengir,“ heyrðist í mjúku röddinni hans Baldvins.

„Hvernig er það hægt?“spurði Erlendur án þess þó að fá svar til baka.

Mikið myrkur blasti við þeim inni og komu ljósin þá að góðum notum. Þeir gengu hægt og rólega inn og lýstu upp alla veggi í kringum sig.

„HALLÓ.“ Erlendur reif þögnina með því að hrópa svo að bergmálaði um allt rýmið. Ewin hrökk við. Hann horfði á Erlend og lét svipinn gefa til kynna að honum stæði ekki á sama. „Ætlarðu að drepa okkur Erlendur?“

„Hva... við þurfum að sýna smá hörku. Annars verðum við undir. Þetta er bara eins og Darwinisminn. Aumingjarnir drepast alltaf fyrst.“

„Ég sé bara veggi beggja megin og aðra hurð á hinum endanum, það heyrir enginn í þér,“ sagði Ewin. „Annars set ég ekki samasem merki á milli hörku og hávaða, en þú lætur mig bara vita næst þegar þú ætlar að hrópa.“

„Já þú segir nokkuð,“ sagði Erlendur eins og hann nennti ekki að kryfja þetta mál frekar.

Þeir héldu áfram inn ganginn þar til þeir komu að hinni hurðinni sem Ewin hafði talað um. Dyrnar voru sem betur fer opnar svo Erlendur gat sparað kraftana sína. Hinumegin við hurðina lágu nokkur færibönd, full af ferðatöskum, þvert yfir rýmið, ýmist meðfram gólfinu, í augnhæð og lengra uppi í loftinu. Þetta var greinilega ekki staður þar sem almenningur átti að vera. Færiböndin voru öll stopp og engin hræða sjáanleg í þessu kolniðamyrkri.

„Höldum áfram. Þarna er stigi sem gæti fært okkur nær verslunarmiðstöðinni sem ætti að vera hérna beint fyrir ofan okkur,“ sagði Erlendur og lýsti að stiganum þar sem hann var hálfur í skjóli færibanda og farangurs. „Hún var þar allavega síðast þegar ég vissi,“ bætti hann við.

„Þeir fara nú varla að flakka um með heila verslunarmiðstöð,“ sagði Baldvin meðan þeir gengu í átt að stiganum.

„Þeim tókst að byggja turna, bæta við flugbrautum og stækka húsið, þeir hljóta að geta fært eitt stykki verslunarmiðstöð,“ sagði Ewin.

„Þeir þeir þeir. Þeir hverjir? Hvaða þeir? Ég sé enga,“ sagði Erlendur.

„Hálfvitarnir. Það voru eintómir hálfvitar sem færðu þetta,“ sagði Ewin pirraður út í óþarflega leiðinlega athugasemd Erlendar, og ekki hjálpuðu aðstæðurnar til.

„Tjah, mennirnir sem bjuggu hérna væntanlega. Hverjir aðrir ættu að standa í framkvæmdum?“ spurði Baldvin.

„Einmitt, það eru mestmegnis skáeygðir hálfvitar sem búa á Jodess... og hvað þá í byggingariðnaðinum,“ bætti Ewin við og áleit svo að hálfvitakenningin væri nægilega rökstudd.

„Bjuggu,“ bætti Erlendur við, „mér sýnist hálfvitarnir hafa flúið – eða verið brottnumdir.“

Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464 | Powered by Karolina