Ég er alin upp í Selárdal með stórum hópi frændsystkina sem átti besta leikvöll í heimi niður við sjóinn. Í barnshuganum var þetta svo sjálfsagt að hægt væri að skottast niður að sjó úti við endimörk heimsins og leika sér innan um ljón og exótískar byggingar. Með tímanum hefur mér svo skilist hversu magnað það er að sveitungi minn skuli hafa reist þessar styttur og þessi hús fyrir ellistyrkinn sinn, og tel það skyldu mína að vinna að því með öðru góðu fólki að varðveita þessar einstöku minjar um íslenska alþýðulist út við ystu nöf svo sem flestir fái notið þeirra.