María Krista er fædd og uppalin þann 31.desember 1973 í Hafnarfirði og búsett þar ásamt 3 börnum, hænum, ótal mörgum villiköttum og dásamlega þolinmóðum eiginmanni. Hún er lærður grafískur hönnuður frá Listaháskóla Íslands og hefur starfað hjá Fróða og Iðunni en sinnir nú að mestu leyti vöruhönnun hjá fyrirtæki sínu KristaDesign.is. Hún rekur ásamt systur sinni og maka verslunina Systur&Makar , Síðumúla 21 og framleiða þau allar sínar vörur sjálf hér heima ásamt góðu starfsfólki.
Áhugi Maríu á villikisum hófst fyrir alvöru fyrir sirka 3-4 árum þegar hún fór að taka eftir auknum fjölda af villiköttum í hrauninu þar sem hún býr. Sjálfboðastarfið hófst fyrir alvöru þegar hún kynntist félagsskapnum Villikettir og síðan hafa fleiri hundruð kettir fengið að dvelja í athvarfi sem María rekur á lóð sinni.
Nú er félagið búið að stækka svo ört að það þarf að komast í varanlegt húsnæði því vandinn er því miður kominn til að vera um einhvern tíma eða þar til markmiði félagsins er náð sem er að útrýma á mannúðlegan hátt villiköttum á Íslandi. Það gerir félagið með því að gelda og sleppa villiköttum og hægt og rólega hægist á framleiðslunni. Vonandi gengur þetta verkefni vel en ósk okkar er að koma kisunum í öruggt skjól áður en veturinn skellur á.