Bar, veitinga-, skemmti- og tónleikastaður.
Vagninn, sem nefndur hefur verið krá allra landsmanna, er staður sem allir Flateyringar þekkja. Og ekki aðeins Flateyringar, heldur fólk alls staðar að á landinu og úr öllum áttum. Íbúar staðarins og þeir sem þangað koma hafa ást á staðnum og segja má að Vagninn sé hjarta Flateyrar. Á Vagninum hefur ýmislegt átt sér stað. Þangað hafa fjölmargir tónlistarmenn lagt leið sína og sóst í að spila á þessum litla en hlýja stað. Þar var hið víðfræga lag KK When I think of angels til að mynda samið. Lag Óla Popp - Hafið eða fjöllin er einkennissöngur staðarins og allir sem hafa komið á ball á Vagninum skilja hvað það þýðir að öskursyngja lagið í góðra vina hópi.
Á Vagninum er gott að vera...og snæða og skrafa og skála og syngja og dansa og vera til!
Nýtt eigendateymi tók við Vagninum í vor. Hópurinn samanstendur af þremur pörum sem öll eru svokallaðir sumarfuglar á Flateyri. Hafa laðast af fólkinu og fjöllunum á þessum stað og eiga nú hús á eyrinni og vilja helst ekki annars staðar vera. Geir Magnússon er ljósameistari í kvikmyndagerð. Hann er altmuligt grúskari, kann að sauma og smíða og svo er hann ansi lunkinn í eldhúsinu. Ragnheiður Ólafsdóttir er nuddari og lagin við flest. Hún og Geir rækta saman kryddjurtir í matseldina, sem er margskonar, því hún er grænmetisæta en hann elskar kjöt. Hálfdan Lárus Pedersen er leikmynda-og innanhússhönnuður. Hann er fanatískur endurvinnslumaður og flóamarkaðsgrúskari og hefur nú þegar gert upp eigið hús á Flateyri, einungis með endurunnu efni. Sara Jónsdóttir er verkefnastjóri og hátíðarhaldari en vinnur einnig að hönnunarverkefnum. Hálfdan og Sara vinna oft saman. Eru þrælólík en bæta hvort annað upp. Sindri Páll Kjartansson er kvikmyndagerðarmaður, pródúsent og kann að fara með tölur. Hann er áhugamaður um gamlar kaffikönnur og súrmeti. Arnþrúður Dögg Sigurðardóttir hefur starfað sem pródúsent í eftirvinnslu kvikmyndageirans en einnig baksviðs í tísku og second-hand bransanum. Nú er hún í fæðingarorlofi, en líka að rífa niður og byggja upp veggi í húsinu sínu. Sindri og Addú eru svart og hvítt en saman eru þau glimmer. Þessi hópur hefur að geyma öll element sem þarf til að gera góðan stað frábæran.
Fylgdu okkur á Facebook!
Facebook/Vagninnflateyri