Eva Þyri Hilmarsdóttir píanóleikari stundaði nám hjá Þorsteini Gauta Sigurðssyni og Halldóri Haraldssyni og lauk Píanókennaraprófi og Burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hún lauk síðar Diplómaprófi og Einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Árósum í Danmörku undir handleiðslu John Damgaard.
Þaðan lá leiðin til Lundúna þar sem hún stundaði MA nám í meðleik við The Royal Academy of Music. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpenter Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Aðalkennari hennar þar var Michael Dussek.
Hún hefur tekið þátt í meistanámskeiðum hjá m.a. Geörgy Sebök, Einar Steen-Nökleberg, Martinu Tirimo, Jeremy Menuhin, Sven Birch, Eero Heinonen, Clelia Sarno, Luiz de Moura Castro, Vitaly Margulis, Paul Baura-Skoda and Boris Berman.
Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri m.a. komið fram sem einleikari með hljómsveit, spilað í hljómsveitum af ýmsum stærðum og tekið þátt í frumflutningi verka, m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London.
Undanfarin ár hefur hún lagt mikla áherslu á flutning kammertónlistar og ljóðasöngs. Hún tók t.d. þátt í Song Cirlce í Royal Academy of Music, meistaranámskeiðum hjá Barböru Bonney, sir Thomas Allen, Helmut Deutch, Roger Vignoles og Audrey Hyland auk þess að vera virkur þátttakandi og meðleikari í The North Sea Vocal Academy í Danmörku.
Af nýlegum verkefnum má nefna frumflutning á sönglögum eftir Áskel Másson, Atla Heimi Sveinsson, Oliver Kentish og Þórunni Grétu Sigurðardóttur, einleikstónleika í Salnum, tónleika með verkum fyrir tvö píanó í Salnum, fjölmarga tónleika á vegum CCCR; Pearls of Icelandic Song, í Hörpu, Háskólatónleika með kammerverkum eftir Þorkel Sigurbjörnsson og flutning á sönglögum og þjóðlagaútsetningum Jórunnar Viðar í Listasafni Sigurjóns og tónleika með Wunderhorn tríóinu m.a. í Berlín, Tórshavn og Reykjavík.
Einnig hlaut Eva Þyri mikið lof gagnrýnenda fyrir frammistöðu sína í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Mannsröddinni eftir Poulenc í febrúar 2017.
Í lok árs 2018 kemur út geisladiskur þar sem Eva Þyri og Erla Dóra Vogler mezzosópran flytja sönglög og þjóðlagaútsetningar Jórunnar Viðar í tilefni 100 ára afmælis Jórunnar.
Eva Þyri starfar einnig sem píanókennari og meðleikari við Tónlistarskóla Kópavogs, Tónlistarskólann í Garðabæ, Tónlistarskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands.
Upptökur með leik Evu Þyri má finna á youtube-rás hennar:
https://www.youtube.com/playlist?list=PLN6ilvTOTbcekK8IbD4UT1eMb0-mbCWGt