Ég er þýðandi, skáld, bóksali í Kanínuholunni og stefni nú á að verða bókaútgefandi. Ég hef sprúðlandi ástríðu fyrir bókum, ljóðum, sundi og heimsfriði. Kanínuholan var draumur um veröld fulla af bókum en með bókaútgáfunni vil ég breiða út friðarboðskapinn.
Kanínuholan er fornbókaveröld í bílskúr í Holtunum, Stangarholti 10. hvar framstilling og bókaval er í höndum Móheiðar Hlífar Geirlaugsdóttur, bókakera. Þar er að finna forvitnilegar bækur frá öllum heimshornum, gamlar sem nýjar á fjölmörgum tungumálum. Kanínuholan hefur staðið fyrir eigin viðburðum svo sem Bókmenntahátíð alþýðunnar og verið með hliðarviðburði á Bókmenntahátíð Reykjavíkur. Það er alltaf glatt á hjalla í holunni, kaffið svart og mörg merkileg ljóðskáld venja þangað komur sínar. Nú svo hafa jafnvel heimsfrægir gestir litið inn eins og Andrei Kúrkov frá Úkraínu og Skoski bóksalinn Shaun Bythell.