Ég er mikill áhugamaður um heilsu, hreyfingu og heilbrigt líferni almennt. Ég hef átt mína eigin baráttu við streitu, kvíða og meiðsli. Flottankarnir reyndust því alveg frábær uppgötvun fyrir mig. Ég heyrði fyrst af þessu fyrirbæri „að fljóta“ fyrir 6 árum síðan og tengdi mikið við þá kosti sem áttu að fylgja því að stunda regluleg flot.
Ég gerði mér svo loksins ferð til að láta á þetta reyna og eftir þriðja skiptið í tanknum var ekki aftur snúið. Ég vissi að þetta var eitthvað sem ég, fjölskylda mín og örugglega flestir aðrir á Íslandi þyrftu að hafa aðgang að.
Allir þeir kostir sem fylgja því að fljóta eiga svo einstaklega vel við þá kvilla sem Íslendingar búa við í dag. Við vinnum alltof mikið, sofum lítið og streituvaldar líklega sjaldan verið fleiri . Við sláum met í notkun þunglyndislyfja og sjáum varla sól á himni nema í örfáa daga á ári.
Ég held að Íslendingar muni taka því fagnandi að hafa loksins aðgang að svona öflugu og náttúrulegu tóli til að takast á við þessi erfiðu vandamál.
Ég er gríðarlega spenntur að takast á við þetta verkefni og fá tækifæri til að taka þátt í að kynna og vinna að einhverju sem svona margir geta notið góðs af.