Ég ólst upp með tónlist allt í kringum mig. Faðir minn, Pálmi Stefánsson, er tónlistarmaður, og sem lítill strákur stökk ég oft niður í bílskúr til að hlusta á hann æfa með hinum ýmsu hljómsveitum. Ég byrjaði snemma að læra á hljóðfæri, en auk blokkflautunnar, sem á þessum tíma var innganngur margra barna í tónlistarheiminn, byrjaði ég að læra á orgel hjá Gígju Kvam 8 ára gamall. Um tíma hætti ég þessu, en um 16 ára aldur skipti ég yfir á trommur og hef spilað á þær sleitulaust síðan. Ég hef lært á trommur og slagverk hjá ýmsum kennurum, bæði hér heima og í Bandaríkjunum. Í dag tromma ég með hljómsveitunum LOST og Tonnataki hér á Akureyri, auk ýmissa annara verkefna.
Ég starfaði í Tónabúðinni í tæp 20 ár, og þar fékk ég ólæknandi áhuga á öllum þeim græjum sem tilheyra tónlistarbransanum. Ég eignaðist fjögurra rása kassettutæki og tók upp þær hljómsveitir sem ég var í á það magnaða tæki. Löngu löngu síðar, lét ég langþráðan draum rætast og fór í Full Sail University í Florída, og náði mér í gráðu í Recording Engineering.
Undanfarin ár hef ég starfað við kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri ásamt því að spila, taka upp, hljóðblanda, og mastera tónlist af ýmsum toga. Ég hef tekið virkan þátt í þeirri uppbyggingu sem hefur verið á Akureyri með kvikmyndatónlist og ýmist verið upptökustjóri eða aðstoðað við upptökur á tónlist við kvikmyndir svo sem Hrútar, The Perfect Guy, Bilal, Fyrir Framan Annað Fólk, og Lói - Þú flýgur aldrei einn.