Hver ég? Stutta svarið er Breiðhyltingur með lífsreynslu á við ansi marga. Ég kem til dyranna eins og ég er klæddur og tala enga tæpitungu. Að sama skapi ætlast ég til þess sama frá öðrum. Ég berst fyrir mannréttindum allra, hef stutt skaðaminnkunarstefnu og starfa daglega með skjólstæðingum sem þurfa mikla tengingu við þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og velferðarsvið borgarinnar. Ég hef unnið á velferðarsviði Reykjavíkurborgar í málefnum heimilislausra og gistiskýla. Ég hef sinnt trúnaðarstörfum fyrir Rauða krossinn, en þar er ég í fagráði í ákveðnu úrræði og verið sjálfboðaliði fyrir Frú Ragnheiði.
Þá ber að nefna að ég hef verið formaður Afstöðu, félags fanga, í tíu ár og hef ætlað mér að halda því áfram á meðan ég nýt trausts félagsmanna. Sem formaður hef ég skipulagt allt starf félagsins, aflað sjálfboðaliða og oft þurft að beita lausnamiðaðri hugsun og sveigjanleika, til dæmis þannig að endar nái saman hjá samtökunum. Í starfi mínu fyrir félagið hef ég ritað fjölda greina í dagblöð og netmiðla, unnið umsagnir um frumvörp og greinargerðir ásamt því að aðstoða fanga við að reka sín mál hjá hinum ýmsu stofnunum og ráðuneytum. þá hef ég komið að stefnumótum í málefnum fanga og annarra jaðarsettra hópa.