Fyrir ríflega 20 árum fékk ég þá hugmynd að gera heimildarmynd um blindar manneskjur. Ég hafði þá nýlokið 390 klst. kvöldnámi við Kvikmyndaskóla Íslands þar sem heimildarmynd mín „Leiðarlok“, hlaut viðurkenningu sem besta lokaverkefnið. Það var hvatning að vinna til verðlauna og var ég staðráðin í því að gera fleiri heimildamyndir eftir útskrift. Meðfram kvikmyndanáminu starfaði ég sem grunnskólakennari og í sumarfríinu 2002 fékk ég DVCAM að láni hjá Kvikmyndaskólanum og hófst handa við að taka upp heimildarmynd um tvær blindar konur, Ásrúnu Hauksdóttur og Brynju Arthúrsdóttur. Vinnuheiti myndarinnar var „Ljós í myrkri“ en ég ætlaði að gera mynd þar sem skyggnst væri inn í veröld blindra, hugarheim þeirra, skynjun og upplifun á umhverfinu. Mynd þar sem áherslan væri á hversdagslegar athafnir daglegs lífs. Við tökur myndarinnar vildi ég leggja sérstaka áherslu á skynfærin. Heyrnar- og snertiskyn skipta sköpum í lífi blindra og langaði mig að ná nærmyndum af höndum Ásrúnar og Brynju við vinnu og dagleg störf og geta klippt á milli víðmynda og nærmynda. Þess vegna fékk ég stundum til liðs við mig annan tökumann, Michal Polácek, þar sem annað okkar einbeitti sér að nærmyndum en hitt að víðmyndum í sömu töku. Hulda Rós Guðnadóttir var mér líka stundum innan handar við að taka upp hljóð. Mig langaði að geta magnað upp ákveðin hljóð, hversdagsleg hljóð sem sjáandi fólk veitir oftast litla sem enga eftirtekt. Ásrún og Brynja voru fullar af bjartsýni og lífsorku sumarið 2002 og gaman að kynnast þeirra innri manni, viðhorfum til lífsins, heyra sögur úr fortíðinni og vangaveltur um framtíðina. Mér fannst áhugavert að fá að vita hvernig þær skynja heiminn á annan hátt eftir að þær urðu blindar.
Til að gera langa sögu stutta þá náði ég öllum þeim tökum sem ég ætlaði mér sumarið 2002 en klipping og eftirvinnsla tafðist um 20 ár! Í millitíðinni eignaðist ég tvo stráka með Agli mínum, kenndi íslensku og kvikmyndagerð í grunnskóla, kláraði M.A. nám í blaða- og fréttamennsku, starfaði við dagskrárgerð á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu og starfa nú við að ritstýra námsefni hjá Menntamálastofnun. Ókláraða myndin frá sumrinu 2002 minnti þó alltaf reglulega á sig en tækifærið kom ekki fyrr ég hitti kvikmyndagerðarkonuna Ástu Sól Kristjánsdóttur eitt síðdegi í Sundhöllinni. Við höfðum ekki sést síðan ég var við tökur á myndinni um mömmu hennar Ásrúnu í verslunarferð þar sem Ásta Sól var henni innan handar, löngu áður en hún sjálf fór að vinna við kvikmyndagerð. Þvílíkt lán og lukka að hafa rambað á Ástu Sól því nú fóru hlutirnir að gerast! Við ákváðum að klára myndina „Með opin augun“ saman og nú var ég á hliðarlínunni en Ásta fyrir aftan myndavélina því við ákváðum að nauðsynlegt væri að bæta við efni og taka upp þráðinn 20 árum seinna. Ég vona innilega að við náum að safna nægu fjármagni til að geta klárað klippingu og eftirvinnslu myndarinnar.