Nýr óháður fjölmiðill
To add milestones and tasks to your plan, please send them via e-mail to info@karolinafund.com. Tell us which tasks you have already finished (checked) and which ones are left.
Showing what the plan is for your project helps build trust with potential backers.
Ath: Nú er lágmarkinu náð. En við höfum ákveðið að setja okkur viðbótarmarkmið! Ef við komumst upp í 200% verður hægt að fá fleiri blaðamenn til liðs við Stundina og setja meiri kraft í rannsóknarblaðamennsku.
Við tökum öll ákvarðanir byggðar á þeim upplýsingum sem við fáum. Þessar ákvarðanir eru undirstaða farsældar samfélagsins og okkar sjálfra.
Vald hefur áhrif á þær upplýsingar sem okkur eru veittar. Hagsmunaaðilar geta komist yfir fjölmiðlafyrirtæki og mótað fjölmiðla eftir sínum eiginhagsmunum í stað almannahagsmuna. Mörgum þykir þetta sjálfsagður réttur eiganda miðilsins á frjálsum markaði. Fyrir öfluga hagsmunaaðila getur það flokkast sem markaðskostnaður að beygja áherslur fjölmiðla í átt að hagsmunum eigenda til að hafa áhrif á sýn almennings.
Aðstandendur Stundarinnar eru hópur sem vill stofna nýjan, íslenskan fjölmiðil sem er undir áhrifum af almannavaldi og almannahagsmunum, en ekki afmörkuðu stjórnmála- eða fjármálavaldi. Markmið okkar er að skapa svigrúm fyrir rannsóknarblaðamennsku, veita valdhöfum aðhald og almenningi upplýsingar sem eru eins ómengaðar af sérhagsmunum og mögulegt er. Til þess þurfum við stuðning. Því fleiri sem styðja okkur, því meira getum við gert.
Við viljum biðja þig að taka þátt í því með okkur. Vertu valdið.
Stundin opnar vef- og prentútgáfu í febrúar.
- Nútímalegur, áhugaverður, skiljanlegur, framsækinn, ómengaður og mannlegur fjölmiðill sem kemur út daglega á vefnum og einu sinni í mánuði sem stórt prentblað. Útgáfutíðni prentaðs blaðs gæti breyst síðar.
- Lýðræðisleg ritstjórnarstefna sem miðast við áhuga almennings og sjónarhorn óháð valdaöflum og vandaða, afhjúpandi blaðamennsku.
- Lýðræði og valddreifing innbyggð í rekstrarfélag miðilsins - enginn einn eigandi ræður meira en 15% atkvæðamagns á hluthafafundum.
- Fjölmiðilinn verður að stórum hluta í eigu starfsmanna.
- Stjórnendur miðilsins birta persónulega hagsmunaskráningu sína opinberlega.
- Öflugir pennar verða valdir til skrifa.
- Hagstætt áskriftarverð verður um 950 krónur á mánuði, en greitt fyrir þrjá mánuði í senn.
- Áskrifendur fá ýmis tilboð og afslætti.
- Sérstök áhersla verður lögð á að styrkja góðgerðarstarf.
„Áróður gerir það sama í lýðræðisríki og kylfa í alræðisríki.“
Noam Chomsky, Media Control
Því fleiri sem kaupa áskrift, þess meiru getur Stundin áorkað.
Hópurinn að baki Stundinni hefur víðtæka reynslu af rekstri, ritstjórn, hönnun og stofnun fjölmiðla.
Elín G. Ragnarsdóttir er fyrrverandi framkvæmdastjóri Útgáfufélagsins Birtings. Hún hefur áralanga reynslu af rekstri fjölmiðla og sat í stjórn DV.
Jón Trausti Reynisson
Ritstjóri og framkvæmdastjóri
Ritstýrði DV í fimm ár áður en hann tók við sem framkvæmdastjóri félagsins árið 2012. Stýrði þróun og uppbyggingu vefsins dv.is. Hefur starfað við fjölmiðla frá 19 ára aldri á hinum ýmsu miðlum, svo sem DV, Fréttablaðinu og Mannlífi. Er einn af stofnendum Ísafoldar sem hann jafnframt ritstýrði. Hefur einsett sér að vinna að því að nálgast sannleikann um það sem fólk hefur áhuga á. Er fimmfaldur sumarsjómaður og lærður í heimspeki.
Var ásamt ritstjórn DV tilnefndur til blaðamannaverðlauna árið 2010 fyrir Stjórnlagaþingsvef þar sem lesendum var með nýstárlegum hætti og lifandi framsetningu auðveldað að kynna sér hinn mikla fjölda frambjóðenda.
Á undanförnum árum hefur Jón Trausti meðal annars verið víðlesinn leiðarahöfundur og samfélagsrýnir.
„Frjáls og óháð blaðamennska hefur orðið fyrir miklum áföllum á Íslandi síðustu ár. Eftir hrun vaknaði von um meira lýðræði og gagnsæi til að styrkja stöðu almennings gagnvart valdablokkum. Nú þegar þessi von hefur mikið til fjarað mikið til út er mikilvægt að muna að við eru ekki valdalaus sem borgarar og höfum engar skyldur til að vera gagnrýnislaus. Við getum haft áhrif á ýmsan hátt, þótt reynt sé að takmarka það. Það sem við bjóðum upp á hér er að styrkja við stofnun óháðs fjölmiðils sem hefur að leiðarljósi að stunda gagnrýna og athyglisverða blaðamennsku út frá hagsmunum almennings.“
Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir
Ritstjóri
Var aðstoðarritstjóri DV og sat í stjórn Útgáfufélagsins DV ehf. Hefur starfað sem blaðamaður frá árinu 2006, þegar hún hóf störf á Mannlífi. Tók þátt í stofnun tímaritsins Ísafold, ritstýrði Nýju Lífi, og um tíma Húsum og híbýlum, áður en hún færði sig yfir á DV árið 2010.
Var tilnefnd til verðlauna sem blaðamaður ársins 2011, fyrir fjölbreytt og mikilvæg skrif um samfélagsvandamál, svo sem ofbeldi, einkum er varða hlutskipti kvenna.
Var valin rannsóknarblaðamaður ársins 2010 fyrir áleitna og vandaða umfjöllun um kynferðisbrotamál og forystu um skrif á þessu sviði, svo sem um biskupsmálið og önnur meint kynferðisbrot innan kirkju og trúfélaga.
Fékk Jafnréttisviðurkenningu Stígamóta árið 2009 fyrir skrif í ýmsa fjölmiðla um fjölmargar hliðar kynbundins ofbeldis.
Á meðal mála sem Ingibjörg hefur fjallað um eru biskupsmálið, afdrif þeirra sem valda banaslysum í umferðinni, aðbúnaður aldraðra á elliheimilum, aðstæður súludansmeyja á Goldfinger og tengsl eigandans við bæjarstjórans. Þá hefur hún fylgt lögreglunni eftir um nokkurra daga skeið, varið fjórum dögum í Kvennafangelsinu, staðið í röð með bágstöddum í Fjölskylduhjálpinni, mætt vændiskaupendum á hótelherbergi og hangið með rónum til að kynnast sögu þeirra.
„Í störfum mínum sem blaðamaður hef ég lagt áherslu á að ræða við fólk um aðstæður þess og reynslu og setja í samhengi við samfélagið. Þannig hef ég reynt að gefa þeim rödd sem brotið er á og eiga sér jafnvel fáa málsvara. Um leið hefur tekist að opna á umræðu um ýmsa kima samfélagsins og vanda sem oft var áður lítið eða ekki í umræðunni.
Fyrir mér er mikilvægt að til sé miðill sem gerir blaðamönnum kleift að taka á málum með öðrum hætti en aðrir gera og opna á ný sjónarhorn, en er um leið áhugaverður og skemmtilegur. Til þess stofnuðum við Stundina. Við teljum ekki aðeins pláss fyrir slíkan miðil á markaði heldur beinlínis þörf fyrir hann.“
Reynir Traustason
Stundin hefur tryggt sér starfskrafta Reynis þegar skyldum hans við DV lýkur í vor. Hann ritstýrði DV um sjö ára skeið og keypti hlut í félaginu árið 2010 með það að marki að byggja upp frjálsan og óháðan fjölmiðil. Áður hafði hann ritstýrt tímaritunum Ísafold og Mannlífi og verið leiðandi í rannsóknarblaðamennsku um árabil. Á meðal þeirra spillingarmála sem Reynir hefur afhjúpað eru Landssímamálið, Æsumálið, mál Árna Johnsen og lekamálið.
Fékk fyrstu blaðamannaverðlaun sem veitt voru, árið 2003, í flokki rannsóknarblaðamennsku fyrir frumkvæði og heildstæða umfjöllun um rannsókn Samkeppnisstofnunnar á samráði olíufélaganna. Var tilnefndur til verðlauna sem blaðamaður ársins sama ár fyrir þessa umfjöllun.
Þá var ritstjórn DV tilnefnd til blaðamannaverðlauna árið 2010 fyrir Stjórnlagaþingsvef þar sem lesendum var með nýstárlegum hætti og lifandi framsetningu auðveldað að kynna sér hinn mikla fjölda frambjóðenda.
Samhliða blaðamennsku hefur Reynir gefið út fjölmargar bækur, Ljósið í Djúpinu, Sonja de Zorrilla, Á hælum löggunnar, Seiður Grænlands, Ameríski draumurinn, Skuggabörn, Linda – ljós og skuggar og nú síðast Afhjúpun, fréttaævisögu sjómannsins sem varð fréttaritari DV á Flateyri árið 1983 og síðar ritstjóri og eigandi DV.
„Stundin er runnin upp. Þetta verður fjölmiðill í þágu fólksins.“
Jón Ingi Stefánsson
Hönnun og þróun
Jón Ingi hóf störf á DV árið 2007 sem umbrotsmaður og var hönnunarstjóri miðilsins frá árinu 2010. Hélt utan um hönnun blaðs og vefs, auk þess að gegna lykilhlutverki í þróun vefsins DV.is. Vann meðal annars að því að útbúa Beina línu, kosningavefi DV og Stjórnlagaþingsvefinn, sem tilnefndur var til blaðamannaverðlauna árið 2010. Er auk þess söngvari og hefur tekið þátt í uppfærslum Íslensku óperunnar, nú síðast Ragnheiði og Don Carlo.
„Ég vil taka þátt í að búa til fjölmiðil sem er vettvangur óháðrar blaðamennsku í þágu almennings.“
Heiða B. Heiðars
Markaðs- og auglýsingamál
Hóf störf á DV árið 2010 og stýrði þar átta manna auglýsingadeild. Hefur starfað við sölu- og markaðsmál frá árinu 1997 þegar hún hóf störf á Dagskrá vikunnar. Tók þátt í gerð heimildarmyndarinnar Maybe I Should Have, sem kom út í janúar 2010
„Ástæðan fyrir því að ég legg af stað í þessa vegferð er frekar einföld – mig langar til að taka þátt í því að búa til fjölmiðil sem hefur svigrúm til að vera frjáls og óháður. Til þess að svo sé þarf að huga að fleiru en eigendum og hagsmunaöflum valds.
Stærsti hluti tekna og sá mikilvægasti þarf að koma frá lesendum okkar. Fólkinu sem kaupir áskrift að Stundinni. Auglýsingar eða auglýsingatekjur eru okkur líka mikilvægar. Fjölmiðill þarf að geta tekið á neytendamálum og fréttum úr viðskiptalífinu án þess að þurfa að hafa áhyggjur af því að styggja auglýsendur og verða af auglýsingatekjum vegna réttmætra umfjallana.
Við sem stöndum á bak við Stundina erum öll sammála um að við þurfum að vera óttalaus við auglýsingamarkaðinn til að vera óháð. Þess vegna þurfum við stuðning frá almenningi og heilbrigðum auglýsendum.“
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464