Hjálpaðu okkur að bjarga framtíð okkar í Grindavík
Við erum sex manna fjölskylda sem höfum lagt allt í að byggja upp lítið, hlýlegt gistihús í Grindavík. Það var draumur okkar að skapa stað þar sem ferðamenn gætu upplifað íslenska gestrisni á einstakan hátt, þar sem við tókum á móti gestum eins og vinum og gáfum þeim heimilislega upplifun á suðvesturhorni Íslands.
Við keyptum húsið tveimur árum fyrir rýminguna og hófum rekstur þess með miklum metnaði. Við lögðum alla okkar vinnu og orku í að betrumbæta það, bæði að innan og utan, og sköpuðum einstakan stað sem ferðamenn frá öllum heimshornum heimsóttu. Við tókum á móti gestum sem komu hingað til að upplifa krafta náttúrunnar, njóta kyrrðarinnar og læra um íslenska menningu.
Síðan í nóvember 2023 höfum við lifað í algjörri óvissu. Eldgos eftir eldgos hefur sett allt á annan endann. Þó við höfum formlega leyfi til að hafa opið, þá hefur það reynst ómögulegt að halda rekstrinum stöðugum. Við höfum reynt að opna á milli gosa, en hættumat hækkar aftur og aftur og þá neyðumst við til að loka. Við getum ekki hugsað okkur að bjóða gestum upp á gistingu þegar við vitum ekki hvort við þurfum að yfirgefa svæðið eftir nokkra daga eða jafnvel nokkrar klukkustundir. Þessi stöðuga óvissa hefur gert okkur ókleift að reka fyrirtækið á eðlilegan hátt.
Við trúðum því að við fengjum aðstoð, að kerfið myndi styðja við okkur eins og lofað var. En í staðinn höfum við fengið höfnun eftir höfnun, enga skýra framtíðarsýn og engar raunverulegar lausnir sem gera okkur kleift að halda lífsviðurværi okkar gangandi. Við höfum reynt að vera þolinmóð, reynt að halda í vonina, en nú erum við komin að því að við getum þetta ekki lengur ein.
Þess vegna leitum við til ykkar. Við biðjum um hjálp, ekki af því að við viljum biðja, heldur af því að við þurfum hana.
Viðhaldið húsinu og komið í veg fyrir að það verði óstarfhæft þegar svæðið loksins verður öruggt.Staðið undir föstum kostnaði á meðan við lifum í þessari endalausu óvissu.Gert okkur kleift að halda rekstrinum gangandi og undirbúa okkur fyrir framtíðina.Við höfum alltaf reynt að gefa okkar gestum það besta sem við eigum – hlýlegt umhverfi, fróðlega innsýn í íslenskt líf og ógleymanlega upplifun í einstöku umhverfi. Nú þurfum við ykkar hjálp til að halda því áfram.
Ef þú getur styrkt okkur með framlagi, þá þýðir það meira en orð fá lýst. Ef þú getur ekki styrkt, þá biðjum við þig um að deila þessari söfnun með vinum þínum og fjölskyldu. Hver einasta deiling hjálpar okkur að ná til fleiri sem geta staðið með okkur í þessari baráttu.
Við vonum innilega að við fáum tækifæri til að halda rekstrinum gangandi, taka á móti gestum með brosi og veita þeim þá gestrisni sem hefur alltaf verið okkar hjarta og sál. En við getum ekki gert það ein.
Ég heiti Dagmar Valsdóttir og er stolt af uppruna mínum úr Fellunum. Ég er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og hef alla tíð starfað í ferðaþjónustu – atvinnugrein sem ég elska og finn mig í.
Við hjónin, ég og Hjalti Jón Pálsson, eigum fjóra drengi: Þorvald Snorra, Ísleif Pál, Skarphéðinn Þór og Víking Breka, sem eru á aldrinum 8 til 16 ára. Hjalti er frá Vík í Mýrdal, maður sem getur gert allt, sannkallaður „mulligt man“. Hann er einnig menntaður með meistaragráðu í verkefnastjórnun og hefur alltaf dreymt um að búa utan höfuðborgarsvæðisins. Þann draum létum við rætast þegar við fluttum til Grindavíkur.
Við skiptum hlutverkum í rekstri gistiheimilisins okkar á jafnréttisgrundvelli. Hjalti sá um að halda húsinu í toppstandi, spjallaði við gestina og tryggði að þeir fengju persónulega upplifun. Ég hafði yfirumsjón með fjármálum og öllum tölvutengdum þáttum rekstrarins en mætti líka alltaf til að taka á móti gestum við innritun. Þetta fyrirkomulag gekk frábærlega og við elskuðum ekkert meira en að vinna saman í þessu verkefni.
Synir okkar voru einnig hluti af rekstrinum. Þegar Beata, vinkona okkar og traustur starfsmaður, var í fríi tóku þeir að sér að hjálpa til við þrif og unnu sér þannig inn vasapening. Þetta gaf þeim innsýn í rekstur, vinnusemi og ábyrgð, og við vorum stolt af því hversu vel fjölskyldan öll tók þátt í okkar sameiginlega framtaki.
Ferðaþjónustan var ekki bara starf okkar heldur lífsstíll og ástríða. Við sköpuðum ekki aðeins gistiheimili heldur heimili fyrir gestina okkar – stað þar sem þeir fundu fyrir hlýleika, persónulegri þjónustu og einstökum tengslum við staðinn og fólkið.
Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464