Útgáfa Atla Þórs Sigurðssonar á persónulegum rafrænum plötum eftir að hafa greinst með heilaæxli
5.mars 2024 greindist ég með heilaæxli. Það er óskurðtækt, góðkynja og á stærð við golfbolta. Í kjölfarið á aðgerð byrjaði ég að fá flog og fæ ég þau reglulega. Flogin eru viðráðanleg með fyrirvara og ég held meðvitund. Æxlið er hins vegar ekki að fara neitt og eftir erfiða 6 vikna legu á spítalanum vegna mikilla veikinda sem komu eftir aðgerð og aðrar 6 vikur í endurhæfingu á Reykjalundi þá fylltist ég innblástri og fór að semja tónlist til að ná utan um þetta allt saman, fá samhengi og skilning á vandamálinu og vonandi á endanum að sætta mig við þetta verkefni. Nú langar mig að taka upp þessi lög og gefa út og er ég með frábæra söngkonu mér við hlið upp til að gefa út á helstum rafrænum stöðum sem bjóðast, youtube, spotify og hvað þetta heitir allt saman og þætti vænt um stuðning til þess. Þetta getur verið tímafrek vinna og munar um hverja krónu svo hægt sé að gera þetta vel.
Ég byrjaði að glamra á gítar þegar ég var 17 ára og hjálpaði það mér að komast í gegnum erfiðleika sem ég þurfti að vinna úr. Var ágætur partýspilari þegar best á lét en svo eignaðist ég börn og þá gaf ég mér ekki tíma fyrir tónlist. Þörfin helltist allt í einu yfir mig síðasta sumar og nú get ég ekki stoppað. Ég, og þið, vorum það heppin að árið 2016 þá kynntist ég frábærri söngkonu. Íslenska Adele, segi það og skrifa. Þótt ég semji lögin þá hefur hún hjálpað með útsetningar og haldið þeim lifandi með sínum fuglasöng.
Lögin eru flest tilbúin í demo útgáfu og er ég í leit af fólki til þess að útsetja lögin, taka upp og gefa út.
Planið er eftirfarandi og ekki endanlegt:
Lagið Upphafið sem ég samdi árið 2006 verður fyrst gefið út og núverandi staða er sú að á fyrri plötunni eru 5 lög og þar af 1 á ukulele en seinni platan inniheldur 7 lög og inniheldur einnig 1 lag á ukulele.
Þegar fólk lendir í áföllum þá eru þeir heppnu með einhverjar úrvinnsluleiðir. Ég er svo heppinn að hafa gítarinn. Ég er alls ekki flinkastur á hann en nú liggur mér svo mikið á hjarta sem gerir mér auðveldara fyrir að semja en áður. Ef allt fer á versta veg (sem gerist ekki í okkar tilviki) þá er þetta ákveðið legacy sem ég vil skilja eftir sem börnin mín og kona geta yljað sér við á köldum þriðjudagskvöldum.
Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464