Útgáfa hljómdisks, undir nafninu: Við skulum ekki hafa hátt.
Frá því að ég man eftir mér hef ég sett saman texta í ýmsu formi, auk þess sem ég hef gjarnan raulað lagstúfa innra með mér og síðar við eigin "hörpuslátt".
Tónlistarferill minn "á sviði" er ekki langur, en m.a. spilaði ég á yngri árum með hljómsveitunum "Essgó" og "Ágúst Berhenti" á Stöðvarfirði. Ennfremur er ég "guðfaðir" The Hafthors, sem gjarnan koma saman í tengslum við Bræðsluna á Borgarfirði eystri.
Til þess hvattur af kærum vinum mínum, ákvað ég að tímabært væri, að sú árátta mín, að reyna að tengja saman lag og ljóð, yrði aðgengileg í víðtækara formi en nú þegar hefur verið gert af öðrum.
Ég er því að vinna að útgáfu hljómdisks sem innihalda mun 10-12 lög, sem öll eru eftir mig. Textarnir eru einnig allir mínir, utan tveggja. Höfundar þeirra eru Stefán Bragason á Egilsstöðum og Hrönn Jónsdóttir, á Djúpavogi. Heiti disksins "Við skulum ekki hafa hátt ..." er textabrot frá Hrönn. Lagið við texta Stefáns er blús, sem heitir "Bar-lómur".
Upptökur eru vel á veg komnar, undir stjórn tónlistarmannsins Daníels Arasonar og stefnt að því að upptökum ljúki um miðjan september. Hann mun að mestu leyti sjá um hljómborðsleik, koma að söng og kalla til afburða undirleikara, sem hann hefur m.a. áður nýtt í sambærilegum verkefnum.
Leitað hefur verið/verður til "austfirzkra barka" þ.e. söngfólks með beina eða óbeina tengingu við Austurland. Sumir söngvaranna eru vel þekktir í dag, en hinir eiga fullt erindi að heyrast á öldum ljósvakans.
Lögin verða einnig aðgengileg á "You-Tube / Spotify".
Hluti af verkefninu eru útgáfutónleikar eigi síðar en í byrjun nóv. 2024.
Veglegt og upplýsandi umslag verður hluti af hljómdisknum, verða þar aðgengilegir allir textarnir, nöfn allra sem koma við sögu og myndir, sem tengja má efni einstakra texta eða auka mun á gildi útgáfunnar.
Til þess að auðvelda mér verkefnið vantar mig um 25% af heildarfjármögnun og því fer ég af stað með þessa hópfjármögnun. Vonast ég til þess að ég nái markmiðinu mínu. Ykkar beina framlag og/eða með því að kynna verkefnið fyrir kunningjum mun því hjálpa til við að láta drauminn rætast.
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464