Kvikmyndagerðamaðurinn og ljóðskáldið, Guðmundur Magnússon, kvikmyndar hundrað þjóðþekkta einstaklinga við áhorf á kvikmyndinni Englar alheimsins, í bæjarbíó, til að fanga upplifun þeirra og varðveita um ókomna tíð
Vængjaþytur englanna
Augnablik hverfa en kvikmyndin lifir
Söfnun fyrir verkefnið Vængjaþytur englanna er nú í gangi á Karolina Fund. Um er að ræða tilraunamynd, sem verður komandi kynslóðum fallegur menningararfur.
Markmiðið er að fanga upplifun, tilfinningar, gleði og sorg, alfarið í kvikmyndahúsi, sem því miður er deyjandi menning.
Hundrað þjóðþekktir Íslendingar verða áhorfendur á kvikmyndinni Englar alheimsins (2000) eftir Friðrik Þór Friðriksson, og verður sú upplifun tekin upp, þannig að hver og einn þátttakandi verður kvikmyndaður í nærmynd.
Sagan bak við hugmyndina
Guðmundur segir frá: „Fyrir nokkrum árum fékk ég þá hugmynd að gera listræna kvikmynd í anda Shirin eftir Abbas Kiarostami (1940-2016), frá árinu 2008, þar sem upplifun í kvikmyndahúsi var varðveitt með áhrifaríkum hætti á kvikmyndaformi. Kvikmyndin Shirin sýnir 114 þekktar leikkonur í Íran, ásamt leikkonunni frönsku Juliette Binoche, og saga af persnesku ljóði frá tólftu öld er sögð gegnum andlit þessara kvenna.
Englar alheimsins (2000) varð fyrir valinu en mér finnst það vera eina kvikmyndin sem kemur til greina fyrir þetta verkefni hér á Íslandi. Þetta er mynd sem allir þekkja, geta vitnað í og hún liggur djúpt í þjóðarsálinni. Hún er á köflum erfið áhorfs en á sama tíma eru þar margar fyndnustu senur íslenskrar kvikmyndasögu."
„Við erum allir vistmenn á Kleppi. Verið svo vinsamlegir að hringja á lögregluna strax,“ er setning sem flestir þekkja, enda varð hún fræg að endemum í kvikmyndinni Englar alheimsins. Hún er meira að segja sönn!
Bæjarbíó
Tökurnar munu fara fram í Bæjarbíói og verður skipulag þannig að tveir áhorfendur/þátttakendur verða í tökum í einu.
Hver þátttakandi verður með statista með sér sem þó sést lítið í mynd en verður til staðar svo ekki verði einmanalegt og tómlegt umhorfs. Kvikmyndamenning snýst að sjálfsögðu um upplifun með öðru fólki.
Styrktaraðilar fá tækifæri til að taka þátt sem statistar og hitta þá um leið okkar þekktustu leikara af hvíta tjaldinu og úr listaheiminum.
Efnið verður svo klippt saman í heimildamynd sem er jafn löng í mínútum og Englar alheimsins. Og verður sýnd þannig - eins og allir 100 þátttakendur séu saman í bíó.
Þátttakendur:
Þau sem hafa samþykkt þátttöku í verkefninu að sinni eru m.a.:
Ingvar E. Sigurðsson, leikari
Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona
Thor Tulinius. leikari
Pálmi Gestsson, leikari
Hilmar Örn Hilmarsson, tónskáld
Ragnheiður Steindórsdóttir, leikkona
Nanna Kristín Magnúsdóttir, leikkona
Friðrik Þór Friðriksson, leikstjóri.
Saga Garðarsdóttir, leikkona.
"Ég reyni nú að líta á þetta sem uppskeruhátíð og skemmtun fremur en keppni," sagði Ingvar E. Sigurðsson þegar hann tók við Eddu-verðlaunum fyrir hlutverk sitt í Englum alheimsins.
Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
„Það var eiginlega Friðrik sem átti þá frábæru hugmynd að fá Sigurrós til að vera með í tónlistinni við Engla alheimsins og það þurfti ekki að sannfæra mig um ágæti þeirrar hugmyndar [...\] Það liggur við að ég segi að tónlist þeirra í myndinni komi beint úr himnaríki," sagði Hilmar Örn í viðtali við Dagblaðið Vísi árið 2000.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
„Þegar farið er að vinna með svona frábærum leikurum, eins og Ingvari E. Sigurðssyni, Baltasar Kormáki, Birni Jörundi og Hilmi Snæ sem leika sjúklingana, þá er eins og skrifuð samtöl séu gott hráefni og þeir síðan matreiða sem sælkerarétt ofan í áhorfendur,“ sagði Friðrik í samtali við Morgunblaðið.
Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson
KvikmyndinEnglar alheimsins er byggð á metsölubók Einars Más Guðmundssonar, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995.
Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464