Söngkona og lagahöfundur í hæfileikakeppni í Hollywood
Guðbjörg Linda Hartmannsdóttir heiti ég og geng undir listamannanafninu Linda Hartmanns. Ég býð þér að styðja þátttöku mína í stærstu hæfileikakeppni heims sem heitir World Championships of Performing Arts eða WCOPA. Keppnin getur orðið ansi stór stökkpallur og leitt til margra tækifæra innan tónlistarbransans. Þátttöku- og sigurverðlaun keppninnar eru samtals virði yfir $500.000 USD og má þar helst nefna plötusamning hjá stóru útgáfufyrirtæki í Bandaríkjunum. Dómarar fyrri keppna hafa heldur ekki verið af verri endanum og þar má meðal annars nefna Dolly Parton, Dianne Warwick og Liza Minnelli. Verður spennandi að sjá hverjir verða í ár.
Ég hef verið að ryðja mér til rúms í tónlistarbransanum sem söngkona og lagahöfundur í nokkur ár og fór nýlega í áheyrnarprufu fyrir WCOPA keppnina sem hefur verið haldin í 25 ár. Af ótal umsækjendum var ég valin til að taka þátt og fara beint til Hollywood að keppa fyrir hönd Svíþjóðar með flutningi á mínum eigin frumsömdu lögum. Allir keppendur í WCOPA keppninni eru beðnir um að safna styrktaraðilum/sponsum þar sem keppnin greiðir hvorki fluggjald né gistingu og þar að auki þarf að greiða þátttökugjald. Þá mun keppendum standa til boða ýmsar æfingabúðir, vinnusmiðjur og fyrirlestrar þar sem stór nöfn innan tónlistarbransans stíga í pontu.
Mig langar því að höfða til örlætis ykkar og biðja þá sem vilja og geta um að styrkja mig fjárhagslega til þess að geta tekið þátt í keppninni. Endilega skoðið hvaða þakklætisvotta styrktaraðilar geta unnið sér inn með ólíkum áheitum en öll frjáls framlög eru að sjálfsögðu einnig vel þegin.
Meðal þeirra áheita sem ég býð upp á er kennsla í söng en ég er menntuð sem Complete Vocal Technique söngkennari og hef kennt í rúmlega 3 ár. Ég kynntist CVT söngtækninni á Íslandi árið 2012 og kláraði síðan 1 árs nám í Complete Vocal Institute í Danmörku. Í dag er ég að leggja lokahönd á 3 ára sérnám til kennararéttinda og stefni á að útskrifast á vorönn 2024. Í dag vinn ég sem söngkennari í fullu starfi sem mér þykir ótrúlega gefandi og skemmtilegt en þá er ég með um það bil 50 nemendur sem koma til mín í einkatíma í Helsingborg eða fá fjarkennslu í gegnum netið. Hafi þið áhuga á einkakennslu í söng eða þekkið einhvern sem þætti það skemmtileg gjöf þá er um að gera að styrkja Hollywood ferðina með BRONS eða GULL áheitum og næla sér í nokkra söngtíma í leiðinni!
Öll fyrirtæki sem styrkja/sponsa geta fengið fyrirtækjalógó prentað á sérsaumaðan jakka úthlutuðum af umsjónaraðilum keppninnar sem ég mun klæðast í sjónvarpi, æfingabúðum, vinnusmiðjum og á lokaúrslitunum.
Hér fyrir neðan má heyra nýjasta lagið mitt "No one like you" sem kom út þann 7. apríl 2023 ásamt fleiri eldri lögum sem ég hef samið. Einnig má sjá myndband hér að ofan sem sýnir brot af þeirri reynslu sem ég hef öðlast á mínum söngferli.
Þessi keppni er stórt tækifæri fyrir mig til að ná til fleiri hlustenda á heimsvísu, kynnast reynslumiklu afreksfólki innan bransans og keppa til veglegra verðlauna og ÞÚ getur átt stóran þátt í að láta það gerast!
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464