Lita- og verkefnabók fyrir hestaáhugafólk á öllum aldri
Ég heiti Auður Sigurðardóttir og bý og starfa á Blönduósi. Er með bs.c í sálfræði frá Háskóla Íslands en er einnig menntaður hestanuddari/sjúkraþjálfari frá NHT í Noregi og starfa meðal annars sem slíkur. Ég held námskeið bæði hjá hestamannafélögunum og þeim sem áhuga hafa og hef undanfarið verið að hanna netnámskeið í gegnum Hestanudd og heilsu þar sem notendur geta lært hvernig hægt er að framkvæma ýmsar æfingar sem hjálpa til við að styrkja hestinn og auka liðleika. Ekki síst styrkir það einnig okkar sérstaka samband við hestinn sem flestir sem eiga eða umgangast hesta þekkja vel.
Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á fræðslu af öllu tagi sem snýr að líkama hestsins og hvernig hann virkar. Hesturinn er að mínu mati hinn fullkomni íþróttamaður - líkami hestsins er magnaður, ekki bara krafturinn heldur einnig geta hestsins til að bera knapa og um leið hafa getu til að sýna ótrúlega fimi og styrk.
Ég hef orðið var við að efni tengt þessu er af skornum skammti á íslensku. Tel að efni sem þetta sé mikilvægt og ekki síst áhugavert fyrir hestafólkið okkar. Þess vegna bjó ég til þessa bók og hugmyndin var að gera það áhugavert og skemmtilegt fyrir alla.
Bókin er samsett af fróðleik sem ég hef sett upp á einfaldann hátt, myndum sem má lita og skrifa inn á og svo spurningar og púsl sem lesandinn/notandinn getur unnið með.
Draumurinn er að safna nóg til að geta gefið út 100 eintök sem bæði verða til sölu til allra þeirra sem áhuga hafa á efninu og sem fræðsluefni fyrir hestamannafélög landsins. Nokkur hestamannafélög sem og Landssamband hestamanna hafa sýnt áhuga á bókinni sem fræðsluefni.
Bókina hef ég unnið sjálf, bæði texta, myndir og verkefni sem í bókinni eru.
Bókin er nú þegar tilbúin til útgáfu og nú vantar mig bara þinn stuðning að láta drauminn verða að veruleika!
Með kærri kveðju, Auður.
Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464