Bekkur verður settur upp við Hornbjargsvita til minningar um Solveigu Thorlacius
Solveig Thorlacius (1971-2014) lést langt fyrir aldur fram sökum veikinda. Hún var mikil útivistarmanneskja og undi sér best á Hornströndum og fór oft þangað. Vinir og ættingjar ætla nú að reisa bekk til minningar um Sollu (eins og hún var kölluð) og bekkurinn verður staðsettur við Hornbjargsvita.
Búið er að fá leyfi fyrir bekknum hjá Ferðafélagi Íslands og félagið ætlar auk þess að sjá um að flytja bekkinn frá Reykjavík og norður á Hornstrandir. Guðjón Kristinsson frá Dröngum mun smíða bekkinn og skera út myndir og texta. Bekkurinn verður fluttur ósamansettur í byrjun júní 2019 og settur saman og vígður í júlí 2019.
Nú er komið að fjáröflun og hún verður skemmtileg. Þann 24. maí verður stórkostlegt partý til stuðnings verkefninu og þar sem við erum að safna fyrir bekk, þá verður þetta að sjálfsögðu kallað bekkjarpartý! Þeir sem styðja söfnunina geta fengið miða í partýið, hollustu frá Lýsi, göngubók eða eitthvað allt annað. Vertu með og taktu þátt í að fjármagna bekk til minningar um Solveigu Thorlacius!
31.05.19: Nú er hinn frábæri Solludansleikur að baki og hann var ógleymanlegur. Þar sem miði er ekki lengur innifalinn í partý, þá eru endurgjafirnar lækkaðar sem því nemur.
Hér að ofan sést smiðurinn, Guðjón frá Dröngum og hann situr á bekk sem svipar til þess sem verður smíðaður til minningar um Sollu. Sollubekkur verður þó aðeins meiri um sig og útskurður fjölbreyttari og auk þess verður nafn hennar skorið út og setning í hennar anda. Bekkurinn verður svo tryggilega festur til að þola vetrarstormana.
Búið er að setja upp viðburð vegna vígslu bekkjarins: https://www.facebook.com/events/364979637707578/
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464