Skemmtileg og fræðandi barnabók sem undirbýr börn fyrir fæðingu nýs systkinis. Bókin er skrifuð um heimafæðingu en er gott innlegg í undirbúning fjölskyldunnar hver sem fæðingarstaðurinn er.
Bókin "Þegar Hermann kom í heiminn" heitir á frummálinu "Da Knud kom ud" og er skemmtileg barnabók eftir danska höfunda í íslenskri þýðingu Dagnýjar Erlu Vilbergsdóttur. Bókin er skrifuð um heimafæðingu af föður barnsins sem fæðist í sögunni og heimafæðingarljósmóðurinni. Þau réðust í þetta verkefni eftir að foreldrarnir ráku sig á það í undirbúningi fæðingarinnar að þeim fannst verulega skorta gott efni til að undirbúa systkini fyrir fæðingu barns. Sér í lagi fyrir heimafæðingu og þar sem þau ákváðu að leyfa verðandi stórusystur að vera viðstaddri. Fæðingarferlið er hið sama hver sem fæðingarstaðurinn er og því á bókin við sem undirbúningur hvort heldur er fyrir heimafæðingu, fæðingu á spítala eða öðrum fæðingarstað. Bókina má lesa fyrir börn á öllum aldri og þau munu skilja hana hvert á sinn hátt út frá þeirra þroska. Í bókinni er bæði fróðleikur um líkamann og skemmtilegur leikur að orðum um leið og lögð er inn falleg saga um eðlilegt fæðingarferli sem er einnig liður í að börn alist ekki upp við hræðslu við fæðingar því slíkt getur haft mjög hamlandi áhrif þegar kemur að því að þau fari að eiga börn sjálf. Höfundar bókarinnar eru þau: Jesper Manniche og Susanne Warming og bókin er einstaklega skemmtilega myndskreytt af Evu Flinch Gjedde.
Karolina Fund ehf © 2025 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464