Bók um 147 daga ferðalag á mótorhjólum um mið-Asíu
To add milestones and tasks to your plan, please send them via e-mail to info@karolinafund.com. Tell us which tasks you have already finished (checked) and which ones are left.
Showing what the plan is for your project helps build trust with potential backers.
Hverskonar sjálfspíningarhvöt er þarna að verki þegar ferðamáti flestra jafnaldranna er þægilegur fólksbíll með hjólhýsi eða Boeing 757 á vel skipulagða sólarströnd?
Hvað er það sem mögulega er fengið með þessu brölti?
Þessum spurningum og mörgum fleirum verður svarað í þessari bók sem fjallar um 5 mánaða ferðalag hjónanna Unnar og Högna um 20 lönd sumarið 2014. Lönd sem mörg hver eru stundum kölluð nöfnum á borð við Fjarskanistan, Langtíburtistan og Glatkistan.
Bókin verður um 130 blaðsíður, ríkulega myndskreytt og lýsir í léttum dúr hvernig miðaldra millistéttarhjón frá Íslandi takast á við allar þær ófyrirsjáanlegu uppákomur sem þessháttar ferðalag getur haft í för með sér.
Lausleg ferðaáætlun og "lógó" ferðarinnar.
Kaffi og kleinur í óbyggðum Mongólíu.
Ferðahjólin og hippinn.
Fjölfarinn þjóðvegur; Mongólía.
Heit súpa í hádeginu í kaldri Síberíu.
Tadsíkistan "Bensínstöð".
Eftirlit á þjóðvegi í Úsbekistan.
Hér á eftir er stuttur kafli úr bókinni þar sem ferðalangarnir koma til Kirgistan í fyrsta skipti.
Kirgistan er undurfagurt fjallaland sem birtist eins og gróðurvin milli þessara eyðimarka sem umkringja það-Kasakstan að norðan, Úsbekistan að vestan, Tadsíkistan að sunnan og Kína að austan. Ég gef mér það að sá hluti Kína sem liggur að landamærunum sé gróðurvana og hrjóstrugur – bara til að halda samræminu og séð á korti þá virðist það einmitt vera tilfellið.
Við duttum sem sagt inn í þessa gróðri vöxnu vin eftir nóttina í Charyn gljúfrinu í Kasakstan og vorum einu gestirnir á landamærastöðinni.
Alveg þangað til þyrla kom aðvífandi og út úr henni sté hershöfðinginn eða einhver svoleiðis gaur og tók eftirlitsrúnt um svæðið með ritara og fylgdarliði.
Þetta var pínu fyndin uppákoma.
Sólin skín og blómin ilma; tveir rykugir mótorhjólaferðalangar renna upp að skúrnum sem þjónar sem landamærastöð. Nokkrir ungir, myndarlegir, suðrænir hermenn eru á vappi, tala í síma, reykja, spjalla saman, skoða pappíra og vegabréf- allir í góðum fíling og mestu rósemd. Þyrluhljóð heyrist í fjarska og hækkar smám saman. Hermennirnir líta hver á annan. Símar og tóbak er látið hverfa, skóburstar birtast úr lausu lofti og eru notaðir af kappi á rykug stígvél, húfur eru settar upp, jakkar lagaðir og skyrtur hnepptar. Allir verða mjög alvarlegir í framan og reyna að sýnast önnum kafnir við merkileg störf. Þyrlan lendir á grasbala og út stígur hershöfðinginn eða einhver yfirmaður sem ég kann ekki skil á en nýtur greinilega mikillar og óttablandinnar virðingar. Hann gengur um og skoðar og við hlið hans er ritari með blokk og penna og skrifar niður athugasemdir um leið og þær eru gerðar.
Fólkið sem finnst það sjálft vera merkilegasta fólkið á svæðinu og kann ekki að bera virðingu fyrir yfirvöldum (lesist: Íslendingarnir) lætur eins og ekkert sé og bíður bara eftir að afgreiðslunni ljúki og Kirgistan opni faðminn. En skyndilega erum við orðin miðpunktur athyglinnar. Hershöfðinginn hefur náð okkur í sigtið og kemur nú aðvífandi af fullum þunga umkringdur fylgdarliði; ritaranum, ljósmyndaranum, yfirmanni stöðvarinnar og einhverjum fleirum. Með hjálp enskumælandi fylgdarmanns skiptumst við á hefðbundnum spurningum og svörum og svo stillir hershöfðinginn sér upp á milli okkar og lætur taka af sér mynd.
Kasakstan hafði einn ótvíræðan kost fram yfir Kirgistan. Þar var minna af pöddum. Með auknum gróðri kemur nefninlega aukið dýralíf- ekki síst skordýralíf.
Ekki misskilja mig- ég hef ekkert á móti skordýrum. Mér finnst þau ótrúlega heillandi skepnur. Hluti af því sem mér finnst skemmtilegast við útlönd er einmitt þessi flóra af smádýrum sem eru svo allt öðru vísi (og oft stærri..) en smádýrin heima.
Þeir sem hjóla á mótorhjólum vita örugglega nú þegar hvað ég er að fara.
Fyrir ykkur hin –ég er að tala um fljúgandi pöddur sem hitta mann fyrir á ferðinni. Ef maður er heppinn þá lenda þær á handleggjunum, fótleggjunum eða utan á hjálminum. Ef maður er óheppinn koma þær á 100 km hraða í andlitið á manni því í miklum hita er dásamlegt að hafa hjálminn opinn og fá smá vindkælingu.
Eða- sem er ný reynsla fyrir mig sem er að nota peysubrynju í fyrsta skipti í þessum túr-þá lenda þær á brynjunni, vankast lítillega, ná að læsa klónum í efnið og hanga þar meðan þær ná ráði og rænu á ný og skríða þá undir hlífarnar. Þar festast þær, komast hvorki fram eða til baka, verða alveg vitlausar af ergelsi og til að leyfa öðrum að vera með í því þá bíta þær. Ég er ennþá með tannaförin á handleggnum eftir svona heimsókn sem ég fékk fljótlega eftir að við komum yfir landamærin til Kirgistan.
Það er ólýsanlega viðbjóðslegt að finna að eitthvað er að skríða á manni innanklæða meðan maður er að berjast við misgóða vegi á „leyfilegum“ hámarkshraða. Og það er ekki eins og það sé eitthvað auðvelt að lóga þessum kvikindum. Það er ekki eins og þau séu milli steins og sleggju meðan þau ráfa í ruglinu í nærfötunum mínum. Á aðra hliðina er nefninlega mjúkt mannshold og á hina svampklædd plasthlíf. Og þó maður berji sig og klípi allan utan með kúplingshöndinni meðan hin höndin reynir að halda ferð og/eða vera viðbúin að bremsa ef allt fer í vitleysu þá er ekkert víst með árangur. Í besta falli –ef maður er heppinn-þá nær maður að drepa af sér óværuna en í versta falli verða pöddurnar ennþá verri í skapinu sem bitnar aftur á mér.
Til Mongolíu á mótorhjólum umfjöllun í morgunblaðinu
Að sleppa við að "lenda í einhverju" á ferðalagi
Karolina Fund ehf © 2024 | Kt: 460712-1570 | VAT: 111464